Nú þegar vika er liðin frá Hengill Ultra Trail veit ég að ákvörðun mín um að hætta var rétt. Margir hafa sagt við mig að „ákvörðunin er rétt þegar hún er tekin“. Hafa verið slökkviliðsmaður í 15 ár og varðstjóri hluta af þeim tíma, þá er okkur kennt það að ákvörðun sem er tekin er rétt þegar hún er tekin. Þannig það er hugsun sem ég hef tamið mér í gegnum tíðina.
EEENNN.... já, en það eru fullt af sjálfsásökunum og hugsunum um hvað ef... hvað ef... og það er eðlilegt, ég tel meir að segja að annað væri óeðlilegt. Það er viss sorg sem maður upplifir við að hætta, maður upplifir uppgjöf, skömm og leiða. Maður lendir í sjálfsásökun um að vera ekki nógu góður því þú veist að allri sem eru að fara í gegnum hlaupið eru að kljást við eitthvað – afhverju hefur þú þá rétt á að hætta. Maður þarf að fá að vinna sig í gegnum þessa tilfinningar, syrgja ósigurinn og vinna sig svo út úr því.
Þó þessar hugsanir hafir dunið á mér vissi ég þó að ég var að gera rétt – ég vissi að þessi verkur var ekki eðlilegur og vissi ekki af hverju hann stafaði. Ég hef upplifað marga verki í gegnum hlaup, á fyrsta Laugaveginum 2013 missteig ég mig illa eftir 1,5km, kláraði samt og var 3 mánuði að jafna mig. Í áfangahlaupi mínu í Burgos síðasta haust var ég með magavandamál og ógleði fyrstu 30km af degi 2, náði síðan að troða í mig orku og klára síðustu 18km „þægilega“. Þannig ég veit alveg ég get margt, en ég vildi heldur ekki skemma sumarið. Ákvörðunin var rétt þegar hún var tekin
Í þessu hlaupasamfélagi okkar er alveg magnað hvað samkenndin er mikil, eins og ég sagði áðan, það eru allir að strögla við eitthvað. Á sjálfum hlaupunum peppa menn hvern annan áfram og ef eitthvað klikkar þá færðu svo mikin stuðning sem er alveg stórkostlegt. Allir eru að róa að sama markmiði, að bæta sjálfa sig og sigra sjálfan sig, svo eru nokkrir sem vilja sigra hlaupið... annars væri þetta ekki keppni.
Núna er ég búinn að vera hjá sjúkraþjálfara nokkrum sinnum í vikunni og ekki laust við að mér sé mein illa við hana, þvílíkur fanntur. Nei hún er snillingur, hún er að vinna í að laga hnéskelina og losa um í kring, en hnéskelin er líklega að dragast eitthvað til. Síðan mun taka við rólegt hlaup og massíf styrktarþjálfun. En þó ég hafi styrkt á mér fætur þá þarf að gera það mun meira. Hnéð á mér er bara nokkuð gott núna og ég ætla að fara af stað í rólegheitum eftir helgina. Ekki laust við að það hafi verið yndislegt að geta vaknað í rólegheitum þennan morgun og vera ekki að fara að hlaupa. (skrifaði þetta í staðinn )
Ég er óendanlega þakklátur fyrir þann stuðnning sem allir hafa sýnt mér, alveg magnað að finna þessa samkennd sem ég var að tala um.
Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun því núna veit ég að ég hefði getað skemmt meira og gert að ég gæti ekki hlaupið meir í sumar.
Ég er líka óendanlega þakklátur fyrir að geta farið út að hlaupa, getað hreyft mig og getað hvatt aðra til að hreyfa sig.
Kærar þakkir fyrir að lesa þetta
Comments